17.7.2008 | 21:16
Að loknu frábæru ættarmóti
Nú þegar þriðja ættarmót Hannesarættarinnar er að baki tel ég við hæfi að hripa niður örlítinn pistil og fara lítillega yfir mótið.
Þó mótið ætti ekki að hefjast fyrr en á föstudag var vitað að einhverjir höfðu ákveðið að hefja mótið á fimmtudagskvöldið. Þegar ég var tæplega hálfnaður upp eftir um kvöldmatarleitið, fékk ég símtal frá henni Lenu sem rekur tjaldsvæðið þar sem hún tjáði mér að fólk væri farið að streyma á svæðið. Það hafði nú alveg gleymst að undirbúa hana fyrir það að hörðustu útilegukindur Hannesarættarinnar ætluðu að byrja helgina svo snemma. Þetta olli þó engri ringulreið og áður en yfir lauk höfðu um 25 tjöld og vagnar tekið sér bólfestu á túninu fyrir framan Fossbúð í blíðskaparveðri, eða eitthvað á annað hundrað manns. Róleg og góð stemming var á svæðinu, fólk spjallaði, grillaði og sprellaði. Það skal tekið fram að ekki var tekið í hljóðfæri né söngbækur og greinilegt að liðið hafði ákveðið að spara sig fyrir helgina.
Á föstudagsmorgun vaknaði fólk í sömu blíðunni og hafði verið kvöldinu áður. Það hélt áfram að heilsast og spjalla, sumir fóru í göngu og aðrir í sund. Við áttum von á stóra tjaldinu upp úr kl. 13.00 en í hádeginu var hringt og sagt að um seinkun yrði að ræða, líklega klukkutími eða svo. Eftir hádegið fóru fleiri gestir að renna í hlað og smá saman þéttist svæðið er líða tók á daginn. Ekkert bólaði þó á tjaldinu og var klukkan farin að ganga sex þegar það loksins kom. Þá var drifið í að rusla því upp og var ánægjulegt hversu margir lögðu hönd á plóginn. Stemmingin fór vaxandi er líða tók á kvöldið. Fólk fór á milli svæða sprellaði og spjallaði sem aldrei fyrr. Áður en yfir lauk var búið að syngja og spila flestar þær dægurflugur og ættjarðarsálma sem menn gátu munað. Þá fóru fyrstu tár himinsins að falla til jarðar. Tímasetningin var himnesk, enda klukkan um það bil að verða fjögur og flestir hentu sér í sæng, poka eða næstu heysátu.
Á laugardagsmorgni vaknaði fólk í blautu veðri og gekk á með slagviðri fram eftir degi. Þá kom tjaldið að góðum notum og settum við mótið formlega um tvö leitið. Ekki var grundvöllur fyrir leikjum á túninu en þeim börnum sem vildu var boðið á hestbak við góðar undirtektir og var biðröð á bak þá tvo tíma sem voru í boði. Upp úr kl. 18.00 fór fólk að tínast í tjaldið. Borðaður var veislumatur, sungið, talað, hlegið og trallað út í hið óendanlega. Stórkostlegt var að sjá hversu mörg frábær skemmtiatriði voru flutt og hversu ófeimið fólk var að skella sér upp á svið og taka í hljóðfæri eða hljóðnema. Ekki skemmdi það fyrir að það stytti upp á besta tíma þannig túnin urðu líka partýfær. Frábært kvöld og frábær endir á góðri helgi. Ekki alveg endirinn því daginn eftir var aftur farið að rigna eldi og brennisteini og þurftu allir því að rífa upp draslið við dómsdagsaðstæður. Þetta hafðist þó allt að lokum og allir komust heilir á húfi til síns heima eftir því sem best er vitað.
Við í niðjamótsnefnd viljum þakka öllum sem mættu og tóku þátt í að gera þetta að svo skemmtilegu móti sem raun varð á. Alls mættu um 370 manns á aldrinum átta vikna til 86 ára. Sérstakar þakkir viljum við færa öllum sem hjálpuðu til við að reisa og fella stóra tjaldið sem var 12x30 metrar eða 360 m2. Þar fóru margir á kostum. Einnig eiga þeir heiður skilið sem sáu um að koma með söngkerfi og önnur hljóðfæri en þessir hlutir voru allir lagðir fram og brúkaðir í sjálfboðavinnu. Ekki skal gleyma þeim sem tóku þátt í að hirða upp rusl og stubba á almenningssvæðum. Það skal tekið fram að hún Lena sem sér um tjaldsvæðið kom að máli við okkur rétt áður en síðustu menn yfirgáfu svæðið og lýsti yfir mikilli ánægju með umgengni og viðskilnað á svæðinu. Ljóst er að ekki mega líða meira en fimm ár fram að næsta móti, þetta er einfaldlega of gaman til að láta lengri tíma líða.
ÞÚSUND ÞAKKIR FYRIR OKKUR, ÞIÐ VORUÐ FRÁBÆR.
F.h. nefndarinnar (Særún & Særún, Lilja, Hemmi, Gunni Siggi, Balli, Siggi, Ingi, Gaui og undirritaður)
Jón Ben Einarsson
Um bloggið
Afkomendur Hannesar Einarssonar, f.07.02.1878, d.13.07.1947 og Arnbjargar Sigurðardóttur, f.29.09.1887, d.21.05.1981
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.