Færsluflokkur: Bloggar

Jólaball 2010

Sæl

Jólaballið okkar verður haldið 28. des 2010 kl. 17 í Stapa.

Hefðbundið prógram með jólasveinum og nammipokum.

Allir koma síðan með einhverjar kræsingar og smá pening fyrir aðgangseyri.

 

kv.

Baldur Guðmundsson

f.h. Möggu Hannesar


Jólaballið

Kæri frændi/frænka

Nú er komið að hinu árlega Jólaballi Hannesarættarinnar sem haldið verður í Haukahúsinu að Ásvöllum í Hafnarfirði Sunnudaginn 4. janúar kl. 15.00.

Vonandi mæta sem flestir enda var svo gaman hjá okkur í sumar.

Munið að hafa eitthvað meðferðis á kaffihlaðborðið.

Þangað til gleðileg jól og hafið það gott um hátíðarnar.

Kveðja, Lilja Pétursdóttir


Myndir óskast, helst í kippum

Frænkur & frændur til lands og sveita, nær sem fjær. Ég hef sett inn nokkrar myndir, þó ekki nema úr tveimur vélum.  Ég vil sjá miklu fleiri myndir því það vantar að fá helst alla sem voru á svæðinu í albúmið.  Ég ætlaði sjálfur að vera hrikalega duglegur við myndatökur en það fór nú eins og það fór. Deilum gersemunum sem kunna að leynast í fjölskyldukamerunni.  Ef einhver á videoklippur vil ég líka fá toppana úr þeim tökum. Ég mun síðan hlaða inn kommentum á hverja mynd fyrir sig eftir því sem tími & tækifæri gefast.  Endilega hristið af ykkur slenið og hafið samband.

ENNFREMUR HVET ÉG YKKUR TIL AÐ SKRIFA Í GESTABÓKINA..................................

Kv. Jón Ben, jon.ben@arkitekt.is, gsm 847 2503


Tapað/Fundið

Örfáir óskilamunir urðu eftir er tjaldið var tekið saman.  Um er að ræða gráa prjónavettlinga, svartar Scott skíðalúffur, svarta karlmannsleðurhanska og vandaða svarta kvennmannshanska úr leðri frá Etienne Aigner.  Einnig er svört Puma derhúfua og svört hettupeysa á barn eða ungling (S) í óskilum.  Greinilegt að það hefur verið orðið dimmt í tjaldinu fyrst um svona dökka gripi er að ræða. Að lokum var skilinn eftir hringlaga inngangur í barnatjald á svæðinu sunnanmegin. 
Þessara gripa hef ég í öruggri vörslu.  Annað sem fólk saknar er líklega týnt og tröllum gefið.  Amen.
Kv.
Jón Ben, jon.ben@arkitekt.is,  gsm. 847 2503


Að loknu frábæru ættarmóti

Nú þegar þriðja ættarmót Hannesarættarinnar er að baki tel ég við hæfi að hripa niður örlítinn pistil og fara lítillega yfir mótið.
  Þó mótið ætti ekki að hefjast fyrr en á föstudag var vitað að einhverjir höfðu ákveðið að hefja mótið á fimmtudagskvöldið.  Þegar ég var tæplega hálfnaður upp eftir um kvöldmatarleitið, fékk ég símtal frá henni Lenu sem rekur tjaldsvæðið þar sem hún tjáði mér að fólk væri farið að streyma á svæðið.  Það hafði nú alveg gleymst að undirbúa hana fyrir það að hörðustu útilegukindur Hannesarættarinnar ætluðu að byrja helgina svo snemma.  Þetta olli þó engri ringulreið og áður en yfir lauk höfðu um 25 tjöld og vagnar tekið sér bólfestu á túninu fyrir framan Fossbúð í blíðskaparveðri, eða eitthvað á annað hundrað manns.  Róleg og góð stemming var á svæðinu, fólk spjallaði, grillaði og sprellaði.  Það skal tekið fram að ekki var tekið í hljóðfæri né söngbækur og greinilegt að liðið hafði ákveðið að spara sig fyrir helgina.
  Á föstudagsmorgun vaknaði fólk í sömu blíðunni og hafði verið kvöldinu áður.   Það hélt áfram að heilsast og spjalla, sumir fóru í göngu og aðrir í sund.  Við áttum von á stóra tjaldinu upp úr kl. 13.00 en í hádeginu var hringt og sagt að um seinkun yrði að ræða, líklega klukkutími eða svo.  Eftir hádegið fóru fleiri gestir að renna í hlað og smá saman þéttist svæðið er líða tók á daginn.  Ekkert bólaði þó á tjaldinu og var klukkan farin að ganga sex þegar það loksins kom.  Þá var drifið í að rusla því upp og var ánægjulegt hversu margir lögðu hönd á plóginn.  Stemmingin fór vaxandi er líða tók á kvöldið.  Fólk fór á milli svæða sprellaði og spjallaði sem aldrei fyrr.  Áður en yfir lauk var búið að syngja og spila flestar þær dægurflugur og ættjarðarsálma sem menn gátu munað. Þá fóru fyrstu tár himinsins að falla til jarðar.  Tímasetningin var himnesk, enda klukkan um það bil að verða fjögur og flestir hentu sér í sæng, poka eða næstu heysátu.
  Á laugardagsmorgni vaknaði fólk í blautu veðri og gekk á með slagviðri fram eftir degi.  Þá kom tjaldið að góðum notum og settum við mótið formlega um tvö leitið.  Ekki var grundvöllur fyrir leikjum á túninu en þeim börnum sem vildu var boðið á hestbak við góðar undirtektir og var biðröð á bak þá tvo tíma sem voru í boði.  Upp úr kl. 18.00 fór fólk að tínast í tjaldið.  Borðaður var veislumatur, sungið, talað, hlegið og trallað út í hið óendanlega.  Stórkostlegt var að sjá hversu mörg frábær skemmtiatriði voru flutt og hversu ófeimið fólk var að skella sér upp á svið og taka í hljóðfæri eða hljóðnema.  Ekki skemmdi það fyrir að það stytti upp á besta tíma þannig túnin urðu líka partýfær.  Frábært kvöld og frábær endir á góðri helgi.  Ekki alveg endirinn því daginn eftir var aftur farið að rigna eldi og brennisteini og þurftu allir því að rífa upp draslið við dómsdagsaðstæður.  Þetta hafðist þó allt að lokum og allir komust heilir á húfi til síns heima eftir því sem best er vitað.
  Við í niðjamótsnefnd viljum þakka öllum sem mættu og tóku þátt í að gera þetta að svo skemmtilegu móti sem raun varð á.  Alls mættu um 370 manns á aldrinum átta vikna til 86 ára.  Sérstakar þakkir viljum við færa öllum sem hjálpuðu til við að reisa og fella stóra tjaldið sem var 12x30 metrar eða 360 m2.  Þar fóru margir á kostum.  Einnig eiga þeir heiður skilið sem sáu um að koma með söngkerfi og önnur hljóðfæri en þessir hlutir voru allir lagðir fram og brúkaðir í sjálfboðavinnu.  Ekki skal gleyma þeim sem tóku þátt í að hirða upp rusl og stubba á almenningssvæðum. Það skal tekið fram að hún Lena sem sér um tjaldsvæðið kom að máli við okkur rétt áður en síðustu menn yfirgáfu svæðið og lýsti yfir mikilli ánægju með umgengni og viðskilnað á svæðinu.  Ljóst er að ekki mega líða meira en fimm ár fram að næsta móti, þetta er einfaldlega of gaman til að láta lengri tíma líða.

ÞÚSUND ÞAKKIR FYRIR OKKUR, ÞIÐ VORUÐ FRÁBÆR.

F.h. nefndarinnar (Særún & Særún, Lilja, Hemmi, Gunni Siggi, Balli, Siggi, Ingi, Gaui og undirritaður)
Jón Ben Einarsson


Dagskráin og fleiri upplýsingar

Yfirlitsmynd

 

 

 

 

 

 

 

 

Jæja, þá er farið að styttast verulega í mótið.  Kíkti á veðurspánna áðan og hún lofar bara góðu, bongóblíða  næstu daga.  Gæti reyndar rignt á sunnudag en ég ætla að treysta því að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir.  Dagskráin lítur svona út;

         

          föstudagur:

  • Mótstjaldið reist kl. 13.00 á flötinni framan við félagsheimilið Fossbúð en þar verða höfuðstöðvar mótsins
  • Allir gestir tilkynni sig í tjaldinu við komu, og fái viðeigandi upplýsingar
  • Mótsvæðið opnar formlega kl. 16.00
  • Kl. 18.00 kyndum við upp í sameiginlegu tunnugrilli þar sem fólk getur komið og grillað eigið hráefni í góðum félagsskap
  • Um kvöldið tökum við smá brekku- eða skógarsöng ef stemmingin leyfir

Ath. Á Skógum er haldin árleg jazzhátíð þessa helgi, Jazz undir fjöllum.  Hluti af hátíðinni eru tónleikar í Fossbúð á föstudagskvöldinu kl .21.00, þar sem Bláir Skuggar munu leika.  Sveitina skipa; Þórir Baldursson: Hammond orgel, Sigurður Flosason: saxófónn, Jón Páll Bjarnason: gítar, Pétur Östlund: trommur. Kjörin skemmtun fyrir alla jazzgeggjara.

          laugardagur:

  • Niðjamótið formlega sett kl. 14.00
  • Leikir og samvera
  • Börnunum boðið á hestbak milli 15.00 og 17.00
  • Sameiginlegt grill-steikar-hlaðborð fyrir alla upp úr kl. 18.00

Matseðill

Glóðasteikt lambalæri

Meðlæti:

grillaður maís, bakaðar kartöflur, ferskt sumarsalat,

israels couse couse með mangó og suðrænum ávöxtum,

spagetti með tómatbasilsósu (flott fyrir börnin),

brauðbollur með smjöri,

kartöflusalat með meux-sinnepsdressingu

 Extra fyrir börnin:

 grillaðir hamborgarar með hamborgarasósu,

ATH. Allir taki með sér drykkjarföng við hæfi

  • Kvöldvaka, ræður, skemmtiatriði, söngur, dans, sykurpúðagrill fyrir börnin, brekkusöngs-varðeldur, rómantík og gleði. Allir sem vilja láta ljós sitt skína, ungir sem aldnir, eru hér með hvattir til dáða.

          sunnudagur:

  • Sameiginlegt SS-pulsupartý kl. 12.00 - SVALAR á staðnum fyrir börnin
  • Niðjamóti slitið

Nú er bara lykilatriði að allir sem ætla að mæta verði heilir og einnig viljum við hvetja fólk till að fara varlega í umferðinni.  Verstu slysin verða oft þegar aðstæður eru sem bestar.  Þegar þið beygið til vinstri af hringveginum í átt að Skógum takið þið aftur vinstri beygju mjög fljótlega.  Sú beygja á að leiða ykkur að Félagsheimilinu Fossbúð og tjaldsvæðunum.   Við fáum þann helming af tjaldsvæðunum til ráðstöfunar sem er nær Fossbúð.   Einnig höfum við samið um afnot af salernisaðstöðunni þar, en um er að ræða þrjú kvennasalerni og tvö karlasalerni.  Skynsamlegt er fyrir þá sem ætla að tengja sig í rafmagn að vera vel snúraðir.  Munið síðan að taka ferðasöngbókina með, sólhlífina og góða skapið.

F.h. Niðjamótsnefndar
Kv. Jón Ben


Aðeins um staðinn

Skógar er alveg einstaklega fallegur staður steinsnar frá hringveginum. Skógar hafa verið í byggð síðan á landsnámsöld en landnámsmaðurinn var Þrasi Þórólfsson. Sagan segir að Þrasi hafi falið gullkistuna sína í helli á bak við Skógafoss. Skógafoss, sem er 60 metra hár, er einn af fegurstu fossum landsins.

Skógafoss er neðsti fossinn í Skógará en fyrir ofan hann eru yfir 20 fossar, margir mjög fagrir og allháir. Skemmtileg gönguleið er upp með Skógará meðfram gljúfrunum þar sem gott útsýni er yfir fossana. Þessi gönguleið liggur svo áfram yfir Fimmvörðuháls á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls yfir í Þórsmörk (ca 10 km leið). Að ganga yfir Fimmvörðuháls er mjög vinsæl dagleið yfir sumarmánuðina. 

Byggðasafnið á Skógum er löngu landsfrægt og er eitt merkasta byggðasafn landsins þar sem meðal annars hafa verið endurbyggð mörg gömul hús. Auk þess sem er þar mikið og merkilegt samgöngusafn. Byggðasafnið í Skógum á sér nú rúmlega hálfrar aldar sögu, en það var formlega stofnað árið 1949.  Á þeim tíma var safnið í kjallaraherbergi í Héraðskólanum í Skógum. Það var opnað til sýningar 1. desember sama ár. Frumkvöðull að stofnun safnsins er safnstjórinn Þórður Tómasson og hefur hann átt veg og vanda af velferð safnsins allt frá upphafi til dagsins í dag.

Frá Skógum er mjög auðvelt að nálgast marga áhugaverða staði. T.d. á sumrin er boðið upp á snjósleðaferðir á Mýrdalsjökul. Aðeins 5 km austan við Skóga er hægt að komast að Sólheimajökli eftir aðeins 10 mínútna göngu. Vegslóði liggur um Skógarsand niður að strönd og stutt að aka austur til Vík í Mýrdal.  Seljalandsfoss er 27 km vestar og einnig er vert að skoða Gljúfrabúa sem er næsti foss við Seljalandsfoss. Auk þess er gaman að stoppa hjá bænum Fit undir Vestur-Eyjafjöllum og kíkja á Paradísarhelli sem er lítill en manngengur og rifja upp ástarsöguna um Önnu á Stóru-Borg og útlagann Hjalta Magnússon sem hafðist við í hellinum í tvö ár.

Helstu vegalengdir;

Reykjavík

156

Km

Vík

32

Km

Seljalandsfoss

27

Km

Selfoss

99

Km

Næsta sundlaug er útilaugin við bæinn Seljavelli sem er um 5 km vestan við Skóga.

Í Félagsheimilinu Fossbúð á Skógum hefur verið opnuð ferðamannaverslun með ýmsar nauðsynjar, matarkyns, einnig er búið að opna þar matstofu með vínveitingaleyfi, þar sem fæst hefðbundinn skyndibiti, súpur og salat, einnig fæst þar staðgóður heitur matur, hamborgarastaður og pizzeria er í húsinu. Kaffi og kökur, öl og sælgæti er að sjálfsögðu til sölu. Verslunin er ekki síður ætluð fyrir fólkið undir Eyjafjöllum, að það geti keypt matvörur s.s. mjólkurvörur og brauð án þess að þurfa að aka langar leiðir eftir þessum hlutum.

 


Eigið þið myndir ?

Hér til hliðar á síðunni hef ég stofnað myndaalbúm.   Ég skannaði inn nokkrar myndir sem ég átti frá ættarmótinu 1987 í Dölunum.   Það væri frábært ef þið ættuð einhverjar myndir frá fyrri mótum og gætuð sent mér þær og kannski látið smá myndtexta fylgja með. 
Ef einhver lumar á gömlum og góðum myndum af þeim Hannesarbörnum ásamt mökum, þá væri algjör snilld að fá nokkrar slíkar með í myndabankann.

Sendið mér myndirnar á netfangið; jon.ben@arkitekt.is

Kv.
Jón Ben.


Fréttir af skráningu o.fl.

Það er víst löngu orðið tímabært að setja inn einhverjar fréttir af gangi mála frá niðjamótsnefnd.   Skráningafrestur var í upphafi gefinn til 10. maí en þegar sá tími var liðinn höfðu sárafáir staðfest þátttöku en við ákváðum að sýna þolinmæði og ýta við fólki.  Það gafst vel og fljótlega tók að lifna yfir skráningunni.  Enn er fólk að ganga frá sínum málum og þegar þetta er skrifað hafa tæplega 300 manns staðfest þátttöku sína á mótinu sem er alveg ljómandi.  Það er þó farið að styttast allverulega í hátíðina og nú er svo komið að við sem stöndum að undirbúningi mótsins þurfum að fara að loka okkar plönum þannig að nú eru síðustu forvöð fyrir fólk að skrá sig.  Það flækir okkar vinnu og undirbúning þegar fólk dregur ganga frá skráningunni, og því hvetjum við alla sem ætla að mæta, en hafa ekki gengið frá sínum málum, að gyrða í brók og klára málið.

Við í nefndinni erum búin að hittast í nokkur skipti til að leggja á ráðin og það er alveg kristaltært að allir eru staðráðnir  í að gera þetta glæsilegu móti og eiga gæðastund í faðmi fjölskyldu, frændgarðs og íslenskrar náttúru. 

Ljóst er að mikið verður spilað og sungið, enda margir liðtækir tónlistarmenn innan fjölskyldunnar búnir að boða komu sína.   Allir sem eiga hljóðfæri eru hvattir til að taka þau með eða hafa samband við Baldur Þórir Guðmundsson í síma 861 2062 til að kanna hvaða hljóðfæri verða á staðnum.

Þó mótið verði formlega sett kl. 14.00 á laugardeginum þá munu fjölmargir koma á föstudeginum, og þeir allra hörðustu á fimmtudeginum.   Stefnt er að því að kynda upp í sameiginlegu kolagrilli á föstudagskvöldinu þar sem fólki býðst að grilla sitt eigið hráefni og í framhaldinu er ekki ólíklegt að við tendrum lítinn brekkusöngsvarðeld, raulum ættjarðarsálma og aðrar þær dægurflugur sem kunna að skjóta upp kollinum.

Þess má geta að enn er möguleiki á að nálgast hótelgistingu.  Líklega eru þrjú herbergi laus á Hótel Skógum og annað eins á Hótel Eddu.  Fólk verður að hafa samband beint við þessa aðila úr þessu, því við erum í sjálfu sér búin að gefa þessi herbergi frá okkur þar sem framboð var umfram eftirspurn.

Fleiri fréttir munu koma fljótlega í framhaldinu og eru allir hvattir til að kíkja á síðuna annað slagið fram að móti.  Endilega skrifið í gestabókina hér til hliðar, og ef á ykkur brenna einhverjar spurningar, mun ég leitast við að svara þeim eins og auðið er.


F.h. nefndarinnar
Jón Ben Einarsson


Niðjamót

Kæri frændi/frænka

Eins og þú kannt að hafa heyrt nú þegar, er ætlunin að halda niðjamót næsta sumar og verður það þriðja mótið sem haldið er af afkomendum Hannesar og Arnbjargar.

Niðjamótið verður haldið að Skógum undir Eyjafjöllum (við Skógarfoss í ca. 2 tíma fjarlægð frá Reykjavík) helgina 11-13 júlí en svo skemmtilega vill til að það eru nákvæmlega sömu dagsetningar og á Flúðum 1997.

Endanleg dagskrá verður í vinnslu fram á vorið og ætlum við að setja inn frekari fréttir og upplýsingar hér á síðuna þegar nær dregur. Það er þó ljóst að við munum hafa dagskránna með svipuðum hætti og 1997 enda þótti mótið þá heppnast afar vel. 

Dagskráin gæti litið svona út;

Föstudagur: Frjáls dagur - mótsvæðið opnar kl. 16.00
Laugardagur: Setning - Leikir fyrir unga sem aldna o.fl. - Sameiginlegur kvöldverður - Kvöldvaka - ræður, skemmtiatriði, söngur og dans
Sunnudagur: Guðsþjónusta - Pulsupartý - Mótsslit

Á Skógum er um að ræða gistimöguleika á Hótel Eddu, Hótel Skógum, Hótel Drangshlíð og á tjaldsvæðinu sem við fáum að hafa útaf fyrir okkur. Þessir gistimöguleikar eru útlistaðir betur á síðu 2.  Þar  sem ekki er íþróttahús á Skógum er ætlunin að leigja 4-500 manna tjald með gólfi, borðum og bekkjum frá seglagerðinni og búa til félagsheimili á staðnum.  Við höfum reynt að áætla hvað mótið þurfi að kosta og er stefnan að halda okkur innan eftirfarandi ramma;

Börn 0-6 ára: Frítt
Börn 7-14 ára (fædd 1993-2000): 2000 kr.
Fullorðnir (fædd 1992 og fyrr): 6000 kr.

Þar sem við þurfum að geta gert okkur grein fyrir stærð mótsins vegna skipulagningar og aðfanga þurfa þátttakendur að greiða mótsgjaldið að fullu fyrir 10. maí. 

Mótsgjald

Greiða skal inn á reikning; 0542-14-605252, kt. 040246-4799.  Gefa skal upp kennitölu viðkomandi sem greiðanda.  Sé verið að borga fyrir fleiri en viðkomandi vísitölufjölskyldu er æskilegt að senda tölvupóst með skýringum á saerun@simnet.is

- Sameiginleg máltíð, pulsupartý, tjaldleiga með tilheyrandi búnaði o.fl. innifalin í gjaldi

Pöntun hótelgistingar

Særún Guðjónsdóttir í síma 896-6299, netfang: sgsol@mitt.is

Hótelgistingu þarf að vera búið að panta sem fyrst, og í síðasta lagi 10.maí.   Eldra fólkiði verður í forgangi með hótelgistingu.

Dreifing þessa bréfs

Bréf þetta er sent til allra barnabarna Arnbjargar og Hannesar.  Viðkomandi eru ábyrgir fyrir því að koma þessu bréfi áfram á sína fjölskyldu þannig að upplýsingarnar berist til allra. 

VIÐ HVETJUM ALLA TIL AÐ MÆTA MEÐ BROS Á VÖR OG HALDA UPPÁ EITT FJÖLMENNASTA NIÐJAMÓT LANDSINS EINS OG OKKUR EINUM ER LAGIÐ.

Ættarmótsnefndin:
Baldur Þórir Guðmundssonbaldur(hjá)spkef.isgsm 861 2062
Gunnar Sigurður Halldórssongunnarhall(hjá)internet.is gsm 695 6573
Guðni Grétarssongg(hjá)gi.isgsm 896 5551
Guðjón Gestsson/Rakel Gestsd.   rrgdr(hjá)hotmail.comgsm 894 6168
Hermann Ragnarssonhermann(hjá)flotmur.isgsm 824 0824
Ingi Ólafur Ingasonrafgrein(hjá)simnet.isgsm 896 0808
Jón Ben Einarssonjon.ben(hjá)arkitekt.is gsm 847 2503
Lilja Pétursdóttirumhverfistaekni(hjá)simnet.isgsm 898 6892
Sigurður Guðmundssonbilruduthjonustan(hjá)simnet.is gsm 863 3455
Særún Ólafsdóttirsaerun(hjá)simnet.is gsm 893 7335
Særún Guðjónsdóttirsaerun.gudjonsdottir(hjá)glitnir.is   gsm 896 6299


Gjaldskrá fyrir tjaldsvæði Rangárþings eystra 2008

Skógar:
Tjaldstæði, gjald á mann kr. 700,- á sólarhring
Rafmagn á bíla kr. 500,- á sólarhring
Sturta kr. 200,- skiptið (sjálfsali)

Frítt tjaldstæðagjald fyrir 12 ára og yngri.
Eldriborgarar og öryrkjar    kr. 500,- á sólarhring
Sama verð á mann fyrir tjald, tjaldvagna, húsbíla, fellihýsi og hjólhýsi


Hótel Edda Skógum 11.-13. júlí 2008

http://www.hoteledda.is/

Tveggja manna herbergi m/handlaug kr. 8.550,- á nótt.
Eins manns herbergi m/handlaug kr. 6.300,- á nótt.

Innifalið er morgunverðarhlaðborð.

Þeir sem gista í tveggja manna herbergi geta fengið dýnu fyrir börn með sér í herbergi án endurgjalds. Uppbúið aukarúm kostar kr. 2.000,-

Greiða þarf fyrir morgunverð barna eftir aldri.
Morgunverður kostar kr. 900,- á mann.
Börn 0 til 5 ára fá frían morgunverð, en börn 6 til 12 ára greiða hálft gjald.

Samtals höfum við 25-34 herbergi til ráðstöfunar og 20 svefnpokapláss


Hótel Skógar 11.-13. júlí 2008

http://www.hotelranga.is/

Tveggja manna Superior herbergi m/baði kr. 18.900,- á nótt.
Tveggja manna Deluxe herbergi m/baði kr. 20.900,- á nótt.

Innifalið er morgunverðarhlaðborð.

Samtals höfum við 8 Superior og 4 Deluxe herbergi til ráðstöfunar


Hótel Drangshlíð 11.-13. júlí 2008

drangshlid@simnet.is

Sími: 487 8868

Tveggja manna herbergi m/baði kr. 13.900,- á nótt.

Innifalið er morgunverðarhlaðborð.

Samtals eru laus  7 tveggja manna herbergi laus 11 og 12 júlí og 5 herbergi eru að auki  laus12 júlí 

ATH.  Á Hótel Drangshlíð þarf að vera búið að greiða herbergin að fullu minnst 5 vikum fyrir pöntunardag til að við getum haldið þeim.


Um bloggið

Afkomendur Hannesar Einarssonar, f.07.02.1878, d.13.07.1947 og Arnbjargar Sigurðardóttur, f.29.09.1887, d.21.05.1981

Höfundur

Niðjamót
Niðjamót

Spurt er

Næsta ættarmót á að halda eftir ?
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Kristrún, Kristjana og Lára
  • Stína, Jón og Brynja
  • Jón og Stína
  • Særún og Brynja á kaffi húsi í Vík flótti úr rigningu
  • Kristrún, Aron, Lára og Kristjana

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband